Eftir hverju er þú að bíða?

Ég kom heim úr vinnu síðastliðinn fimmtudag hálf þreytt eftir daginn og eftir annasama viku og jú kannski mætti segja annasaman mánuð. Strákarnir mínir voru farnir á litlu jólin í skólanum og voru því ekki væntalegir í kvöldmat. Húsið okkar var nánast á hvolfi og varla hægt að komast inn úr dyrunum fyrir skóm, töskum, hljóðfærum, prjónadóti og svo mætti lengi telja, vaskurinn í eldhúsinu var fullur af óhreinu leirtaui og þvottakarfan við það að gjósa. Satt best að segja að þá held ég stundum að á meðan við erum í skóla og vinnu að þá búi hér einhver annar en við fjölskyldan því að við myndum aldrei ganga svona um, eða þannig. Mér féllust nánast hendur, ég sem átti eftir að skrifa matarinnkaupalistann, skrifa predikun, hringja nokkur símtöl, fara yfir jólagjafalistann, og ég sem ætlið mér í fjallgöngu þetta kvöld og klukkan var orðin korter í jól og ég sem ætlaði ekki að leyfa jóla stressi að ná tökum á mér. Það var tvennt í stöðunni, annað hvort að setjast á eldhúsgólfið og fara að gráta eða bretta upp ermar. Ég valdi það síðarnefnda, klæddi mig í æfingargallann setti George Michael á fóninn og hækkaði vel. Nokkrum klukkustundum, einu súkkulaðistykki og mörgum danssporum síðar var húsið allt orðið spikk og span, innkaupa- og jólagjafalistarnir klárir, símtölin afgreidd og efniviður í predikun kominn.

Þar sem að ég þaut um að undirbúa heimilið fyrir fæðingarhátíð frelsarans þá áttaði ég mig á því að innra með mér tókust á systurnar Marta og María. Á sama tíma og ég vil hafa heimili mitt nokkurn veginn í röð og reglu, því þannig hvílist ég best, þá vil ég einnig hafa tíma og rúm fyrir kærleiksþjónustuna, að geta heimsótt og hringt í þá sem þurfa samveru og faðmlag. Dæmisagan um systurnar Mörtu og Maríu í Lk. 10.38-42 er fyrir mér þessir tveir pólar sem takast á innra með mér, mitt innra jafnvægi. Sem betur fer hefur allt umstang í kringum jólahátíðina farið minnkandi með árunum, þessi þrif sem uxu mér í augum voru einfaldlega uppsöfnuð verkefni, þar sem að ég hef verið upptekin við annað síðustu vikur og notið aðventunnar í leik og starfi en um leið gleymt að næra sjálfa mig með gönguferðum, bænum, hugleiðslu, sjálfselsku og kærleika í minn garð.

Ég heyrði svo stórkostlega dæmisögu sem segir frá konu sem bjó í skógi vöxnum bæ og einn daginn kvikna miklir skógareldar og bæjarbúar þurftu að flýja bæinn, nágranni konunnar er að hlaða bílinn sín og bíður henni að koma með sér, „nei takk sagði konan, það kemur ekkert fyrir mig, Guð sér um mig.“ Frændi konunnar ásamt mörgum bæjarbúum bjóða henni að koma með sér en alltaf afþakkar konan, þyrla sveimar yfir og henni boðið far en allt kom fyrir ekki „nei takk, Guð sér um mig“. Stuttu síðar er konan hjá Guði og skilur ekki upp né niður í neinu, „já en bíddu, Guð ætlaðir þú ekki að sjá fyrir mér?“ spyr konan. Guð svaraði „Jú og það gerði ég, ég sendi nágranna þinn til þín, ég sendi frænda þinn og marga þorpsbúa og ég sendi meira að segja þyrlu til þín, en þú afþakkaðir allt sem ég sendi þér“.

Guð notar fólk eins og mig og þig, kærleikurinn býr innra með mér og innra með þér. Við gleymum þessu oft í erli dagsins, gleymum frelsinu og næringunni sem fylgir því að trúa á kærleikann.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.

Kærleikurinnn öfundar ekki.

Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

1Kor.13.4-8.

Öll bestu næringarefnin er að finna í kærleikanum og við skulum ekki að bíða með að taka þau inn eða að gefa þau frá okkur því þau eru lífsnauðsynleg.

Þegar kirkjuklukkur landsins hringja inn jólin þá óska ég þess að það verði okkur efst í huga að við þurfum aldrei að bíða því að kærleikurinn er hér.

Gleðileg jól.

Anna Hulda, djáknakandídat.